Kvartmíluklúbburinn heldur bikarkeppni í þolakstri á hringakstursbraut Kvartmíluklúbbsins í Kapelluhrauni þann 31. ágúst 2025.
Keppnin er haldin samkvæmt Reglubók FIA ásamt viðaukum hennar, reglum AKÍS og sérreglum keppninnar.
Keppt verður í eftirfarandi flokkum ökutækja með frávikum skilgreindum í sérreglum keppninnar:
Bílar 1050cc
Unglingar - bílar 1050cc
Götubílar
Breyttir götubílar
Opinn flokkur götubíla
Ekki er ræst í riðlum í þessari keppni.
Engin forgjöf er veitt keppendum í þessari keppni.
Veittir verða verðlaunagripir fyrir 1., 2. og 3. sæti skv. lokaúrslitum.
Einnig verða veitt verðlaun fyrir þann sem lengst kemst í keppninni í hverjum keppnisflokki.
Dagskrá keppninnar verður sem hér segir (með fyrirvara um óvæntar uppákomur):
Fimmtudagur 28. ágúst
20:00 Keppendafundur (skyldumæting)
Sunnudagur 31. ágúst
10:45 Pittur opnar / mæting keppenda
11:00 Skoðun hefst
11:30 Pittur lokar
12:00 Skoðun lýkur
12:00 Keppendafundur, framhaldsfundur
12:52 Uppröðunarhringur
13:00 Ræsing þolaksturs
16:00 Þolakstri lýkur
16:10 Bráðabirgðaúrslit birt
16:15 Verðlaunaafhending
16:40 Lokaúrslit birt
KK
Keppnisstjóri: Baldvin Hansson
Öryggisfulltrúi: Ingimundur Helgason
Skoðunarmaður: Valgeir Hugberg Geirmundsson
Formaður dómnefndar: Aðalsteinn Símonarson
Dómnefnd 1: Rafnar Snær Baldvinsson
Dómnefnd 2: Jóhann Egilsson
Framkvæmdanefnd:
Baldvin Hansson, Gunnlaugur Jónasson og Ingimundur Helgason
31. ágúst 2025 kl: 13:00
Hringakstursbraut KK
Lýsing: 2412 metrar
Þolakstur
Þolaksturmót -
Skráning hefst: 18. ágúst 2025 kl: 00:00
Skráningu lýkur: 28. ágúst 2025 kl: 17:00
Bílar 1050cc
Breyttir götubílar
Götubílar
Opinn flokkur götubíla
Unglingar 1050cc bílar
Sérreglur Þolaksturskeppni KK 2025
GREIN 1 KEPPNIN
1.1 Keppnin heitir Þolaksturskeppni KK og er haldin á hringakstursbraut Kvartmíluklúbbsins.
1.2 Keppnin er haldin samkvæmt Reglubók FIA ásamt viðaukum hennar, keppnisgreinarreglum AKÍS fyrir tímaat (með þeim breytingum og frávikum sem lýst er í þessum sérreglum), og þessum sérreglum.
1.3 Keppnin fer fram á hringakstursbraut Kvartmíluklúbbsins í Kapelluhrauni þann 31. ágúst 2025.
1.4 Keppninni verður ekki frestað nema til komi Force Majeure aðstæður.
1.5 Keppnin verður felld niður berist ekki að minnsta kosti 15 skráningar.
GREIN 2 KEPPNISHALDARI
2.1 Keppnishaldari er Kvartmíluklúbburinn (KK), til heimilis að Pósthólfi 16, 222 Hafnarfirði.
GREIN 3 FRAMKVÆMDANEFND
3.1 Framkvæmdanefnd skipa Gunnlaugur Jónasson, Baldvin Hansson og Ingimundur Helgason.
3.2 Framkvæmdanefnd er til heimilis í félagshúsnæði Kvartmíluklúbbsins í Hafnarfirði.
GREIN 4 KEPPNISSVÆÐIÐ OG KEPPNISFYRIRKOMULAG
GREIN 4.1 BRAUTIN
4.1.1 Brautin hefur gilda gerðarvottun sem hæfir þeim ökutækjum sem heimil er þátttaka í keppninni.
4.1.2 Ekið verður rangsælis um brautina.
4.1.3 Brautin er um það bil 2412 metra löng.
GREIN 4.2 PITTURINN
4.2.1 Pittstjóri og aðstoðarmenn hans stýra aðgangi að pitti, niðurröðun og öðru sem þurfa þykir á pittsvæði.
4.2.2 Keppendum er heimilt að aka í pitt hvenær sem þeir telja þörf á því á meðan keppni stendur.
4.2.3 Aka má úr pitti og inn á brautina logi grænt ljós (eða reist grænt flagg) við pitt útkeyrsluna.
4.2.3.a Aldrei má aka úr pitti ef rautt ljós (eða rautt flagg) er við pitt útkeyrsluna nema ökumaður fái skýra bendingu um annað frá starfsmanni keppninnar.
4.2.4 Hámarkshraði í pittakrein er 50 km á klst. og í pitti er 15 km á klst hámarkshraði.
4.2.4.a Hámarkshraða takmörkun tekur gildi um leið og ekið er inn fyrir fyrstu keilur sem marka pittakrein og pittsvæði og gildir fram að útkeyrsluhliði inn á brautina.
4.2.5 Hvert ökutæki á ákveðið stæði í pittinum sem keppnishaldari úthlutar keppanda við mætingu á keppnissvæðið.
GREIN 4.3 SKILYRT AKSTURSHLÉ OG LOKAÐ PITTSVÆÐI (PARC FERMÉ)
4.3.1 Parc Fermé er staðsett við pittsvæði, afmarkað með rauðum keilum.
4.3.2 Ökutæki skal ekið af ökumanni þess beint í Parc Fermé þegar tímatöku lýkur.
4.3.3 Ökutæki skulu vera í Parc Fermé í að minnsta kosti 30 mínútur eftir birtingu bráðabirgðaúrslita eða þar til dómnefnd ákveður að þau megi yfirgefa svæðið.
4.3.4 Á hverri klukkustund sem akstur stendur yfir verður ökumaður að taka 10 mínútna samfellt hlé frá akstri, svokallað skilyrt aksturshlé.
4.3.4.a Ekki má taka tvö skilyrt aksturshlé í einu lagi. Aka þarf lágmark einn hring á milli þeirra.
4.3.4.b Skilyrtu aksturshléi skal varið inni í sérstöku merktu lokuðu pittsvæði (Parc Fermé).
4.3.4.c Óheimilt er að vinna við ökutækið eða breyta því á nokkurn hátt í skilyrtu hléi.
4.3.4.d Þjónustulið má ekki koma inn í lokaða pittsvæðið á meðan á skilyrtu aksturshléi stendur.
4.3.4.e Eldsneytisáfylling er bönnuð í skilyrtu aksturshléi.
4.3.4.f Ekki er heimilt að koma með búnað af nokkru tagi að ökutækinu á meðan það er í lokuðu pittsvæði.
4.3.5 Tímamismunur keppenda við ræsingu er jafnaður út í fyrsta skilyrta aksturshléi á þann hátt að sekúndum til jafns við bil á milli bíla í ræsingu er bætt við biðtíma hvers ökutækis fyrir hvert ökutæki sem á eftir því fór í brautina við upphaf keppni.
4.3.5.a Eftir fyrsta skilyrta aksturshlé verða öll ökutæki því komin með sambærilegan rástíma.
4.3.6 Þar sem hvert skilyrt aksturshlé er 10 mínútur samfellt verður að taka það í síðasta lagi 50 mínútum eftir upphaf hverrar klukkustundar aksturs.
4.3.6.a Í fyrsta slíku hléi þarf að auki að taka tillit til viðbótartíma sem þarf til að jafna út tímamismun í ræsingu.
4.3.6.b Taki ökumaður ekki skilyrt aksturshlé tímanlega rennur hann út á tíma og fellur þá strax úr keppni.
GREIN 5 PERSÓNULEGUR BÚNAÐUR ÖKUMANNA
5.1 Allir ökumenn, óháð flokkum ökutækja, skulu vera í að lágmarki tveggja laga eldheldum heilgalla með viðurkenningu frá FIA (FIA 8856-2000), SFI (SFI 3.2A/5 eða hærra).
GREIN 6 SKRÁNING
6.1 Fyrstu 25 skráningar sem mótteknar verða í mótakerfi AKÍS og uppfylla tilskilin skilyrði varðandi keppanda, ökumann/menn og ökutæki fá strax þátttökurétt.
6.1.1 Keppnishaldara er heimilt að samþykkja fleiri skráningar telji hann það ekki ógna öryggi keppninnar.
6.1.1.a Slíkar viðbótar skráningar verða samþykktar í sömu röð og þær bárust í mótakerfinu.
6.2 Skráning fer fram í gegnum rafrænt skráningarform á vef AKÍS.
6.2.1 Hyggist fleiri en einn ökumaður aka einu og sama ökutækinu sem skráð er til keppni skal tilkynna keppnishaldara um það með tölvupósti á netfangið tholakstur@racecontrol.is að lokinni skráningu ökutækis og fyrsta ökumanns í mótakerfi AKÍS.
6.3 Skráning hefst þegar opnað hefur verið fyrir skráningar á vefnum www.akis.is.
6.4 Skráningu lýkur þann 28. ágúst 2025 klukkan 17:00.
6.5 Skráningar handhafa erlendra keppnisskírteina eru samþykktar í þessari keppni.
6.6 Keppnisgjald (skráningargjald) er kr. 24.500 og felur það í sér:
6.6.1 þátttökurétt í keppninni;
6.6.2 keppnisskírteini keppanda og ökumanns útgefið af AKÍS, ef við á;
6.6.3 afnot af virkum tímatökusendi sem hentar í keppnina.
GREIN 7 TRYGGINGAR
7.1 Öll skráningarskyld ökutæki sem þátt taka í keppninni skulu hafa gilda frjálsa ábyrgðartryggingu (keppnisviðauki við venjulega tryggingu fyrir tímaat eða kappakstur).
7.2 Óskráð ökutæki eru ábyrgðartryggð á vegum keppnishaldara.
7.3 Ökumenn slysatryggja sig á eigin vegum og forsendum eftir því sem þeim sjálfum þykir ástæða til.
GREIN 8 KEPPNIS- OG ÖKUSKÍRTEINI
8.1 Ökumenn skulu hafa gild ökuréttindi í að minnsta kosti flokki B samkvæmt reglugerð Samgöngustofu um ökuskírteini nr. 830/2011 með áorðnum breytingum.
8.1.1 Hafi ökumaður ekki náð bílprófsaldri er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði eins og reglur AKÍS eða landslög og reglur leyfa.
8.2 Ökumenn skulu framvísa gildu ökuskírteini í samræmi við grein 8.1 við mætingu á keppnisstað.
8.3 Keppendur og ökumenn skulu kynna sér reglur Reglubókar FIA varðandi nauðsynleg keppnisskírteini til þátttöku í akstursíþróttakeppni sem þessari.
8.3.1 Gildri skráningu fylgir rafræn útgáfa viðeigandi keppnisskírteina keppanda og ökumanns frá AKÍS og þurfa þeir því ekki að framvísa þessum keppnisskírteinum sérstaklega.
GREIN 9 MERKINGAR ÖKUTÆKJA
9.1 Keppnisnúmeri ökutækis er úthlutað af keppnishaldara.
9.2 Keppnisnúmer skal vera staðsett á öllum fjórum hliðum ökutækis og skal það vera:
9.2.1 í Pantone 803 C lit, eða því sem næst;
9.2.2 í Arial Narrow Bold letri, eða því sem næst, með hefðbundnu hlutfalli hæðar og víddar hvers tölustafs;
9.2.3 í framrúðu, farþegamegin að ofanverðu, lágmark 15 cm að hæð;
9.2.4 í hliðarrúðum að aftan, hægra- og vinstra megin, lágmark 20 cm að hæð;
9.2.5 í afturrúðu, bílstjóramegin að ofanverðu, lágmark 15 cm að hæð.
9.3 Keppendum ber að útvega eigin keppnisnúmeramerkingar og tryggja að ökutæki sé rétt merkt þegar það kemur í keppnisskoðun.
9.4 Um auglýsingar á ökutækjum gilda reglur AKÍS, Reglubókar FIA og reglur og lög landsins.
9.5 Keppnishaldara er heimilt að setja auglýsingu undir hliðarrúðu á báðum framhurðum ökutækis sem er allt að 12 cm há og jafn breið og hurðin.
9.6 Heimilt er að setja auglýsingaborða efst á framrúðu hann má þó ekki vera hærri en svo að ökumaður haldi óskertu og öruggu útsýni til aksturs.
GREIN 10 TÍMATÖKUSENDIR
10.1 Öll ökutæki skulu bera virkan MyLaps tímatökusendi fyrir bíla á meðan á keppni stendur.
10.2 Það er á ábyrgð keppanda að koma tímatökusendinum fyrir á ökutæki sínu og tryggja að hann virki og falli ekki af því á meðan á keppni stendur.
10.3 Falli tímatökusendir af ökutæki, eða hætti hann að virka, er heimilt að vísa ökutæki í pitt með svörtu flaggi. Telst keppnisþátttöku þess lokið geti keppandi ekki gert viðeigandi úrbætur eða sett nýjan virkandi tímatökusendi á ökutækið innan þess tíma sem keppnisstjóri gefur til slíkra úrbóta.
GREIN 11 RÆSING
GREIN 11.1 ALMENNT
11.1.1 Öll ökutæki sem skráð eru til keppni og standast keppnisskoðun fá að ræsa svo fremi að allir ökumenn þess sitji allan keppendafund (sjá reglu 12.1.1).
GREIN 11.2 TÍMASETNINGAR OG HÖGUN
11.2.1 Ræsing fer fram á eftirfarandi tímum og með tilgreindri högun:
11.2.1.a Uppröðunarhringur klukkan 12:52. Ræst í fylgd öryggisbíls.
11.2.1.b Fyrsta ökutæki ræst til keppni klukkan 13:00. Ræst úr kyrrstöðu.
11.2.1.c Ökutæki eru ræst út með jöfnu millibili við upphaf keppni.
GREIN 11.3 RÖÐ OG AFSTAÐA ÖKUTÆKJA VIÐ RÆSINGU
11.3.1 Rásröð ökutækja er ákveðin af keppnishaldara með handahófsreglu og kynnt á keppendafundi.
11.3.2 Ökutæki skulu koma að pitt útaksturshliði í þeirri röð sem er kynnt á keppendafundi og stöðva þar eftir ábendingu ræsis og ræsa þegar hann gefur ræsimerki.
11.3.3 Vél ökutækja skal vera í gangi við ræsingu.
11.3.4 Ökutæki eru ræst út með jöfnu millibili við upphaf keppni. Nákvæmt millibil verður kynnt á keppendafundi.
GREIN 12 SKYLDUR KEPPENDA OG ÖKUMANNA
12.1 Keppendur og allir ökumenn skulu mæta á keppendafund á þeim tíma sem auglýstur er í dagskrá og sitja hann allan.
12.1.1 Sé keppandi og/eða ökumaður (allir ökumenn, séu fleiri en einn ökumaður um tiltekið ökutæki) ekki á fundinum fær ökutækið ekki rásheimild.
12.2 Keppendur og ökumenn skulu þekkja og virða reglur um merkjagjöf í viðauka H við Reglubók FIA, grein 2.5.
12.3 Upplýsingatafla keppninnar er rafræn á vefnum.
12.3.1 Hún er aðgengileg á slóðinni https://nn.is/t9BWg
12.3.2 Á upplýsingatöflunni birtast allar tilkynningar til keppenda og ökumanna, ákvarðanir dómnefndar og annað sem skylt er, eða þarft, að miðla til allra sem mál varða þar til keppni lýkur.
12.4 Keppendur eru minntir á rétt sinn til að leggja fram kærur samkvæmt Reglubók FIA, grein 13.
12.4.1 Kærugjald og annar kostnaður því tengt ræðst af gjaldskrá AKÍS sem er aðgengileg á vef AKÍS.
12.5 Keppendum og ökumönnum er sérstaklega bent á að þekkja og virða:
12.5.1 Siðareglur AKÍS fyrir samfélagsmiðla;
12.5.2 Reglur AKÍS um dróna.
GREIN 13 ÚRSLIT
13.1 Sigurvegari í keppninni, og einstökum flokkum, verður sá sem lokið hefur flestum hringjum þegar tímataka hefur staðið í 180 mínútur.
13.1.1 Séu fleiri en eitt ökutæki búin að ljúka jafn mörgum hringjum við lok tímatöku ræðst röð þeirra af því hvenær hringjum var lokið. Það ökutæki telst á undan sem fyrr lýkur umræddum hringjafjölda.
13.1.2 Aðeins eru taldir full eknir hringir.
13.2 Engin forgjöf er veitt keppendum í þessari keppni.
13.3 Bráðabirgðaúrslit verða birt á upplýsingatöflu keppninnar um leið og tímavörður hefur tekið þau saman og búið til birtingar.
13.3.1 Áætlað er að birting verði kl. 16:10.
13.4 Lokaúrslit verða birt á upplýsingatöflu keppninnar þegar dómnefnd hefur samþykkt þau.
GREIN 14 VERÐLAUN
14.1 Verðlaun verða veitt fyrir 1., 2. og 3. sæti í lokaúrslitum keppninnar.
14.1.1 Verðlaun verða veitt fyrir flesta hringi í hverjum keppnisflokki.
14.1.2 Veitt verða sérstök verðlaun fyrir hraðasta ekinn hring, óháð flokkum.
14.1.3 Það ökutæki sem ekur fæsta hringi í keppninni fær verðlaun fyrir hetjulega baráttu.
14.1.4 Keppnishaldara er heimilt að veita fleiri verðlaun byggð á eigin forsendum.
14.2 Verðlaun verða veitt um leið og bráðabirgðaúrslit liggja fyrir með fyrirvara um breytingar þegar lokaúrslit verða birt.
14.2.1 Verðlaunahafar munu þurfa að gefa eftir, án eftirmála, veitt verðlaun fyrir sæti með öllum þeim réttindum og fríðindum eða verðlaunagripum sem því fylgja, komi til þess að lokaúrslit endurspegli ekki bráðabirgðaúrslit.
GREIN 15 EMBÆTTISMENN OG STARFSMENN
GREIN 15.1 DÓMNEFND
15.1.1 Dómnefnd skipa Aðalsteinn Símonarson, sem jafnframt er formaður hennar, Jóhann Egilsson og Rafnar Snær Baldvinsson.
GREIN 15.2 HELSTU STARFSMENN
15.2.1 Keppnis- og brautarstjóri er Baldvin Hansson.
15.2.2 Skoðunarmaður er Valgeir Hugberg Geirmundarson.
15.2.3 Öryggisfulltrúi er Ingimundur Helgason.
15.2.4 Sjúkrafulltrúi er Ásta Valdís Andrésdóttir
15.2.4.a Gert er ráð fyrir að kalla til sjúkrabíl komi upp atvik sem krefjast sérhæfðrar sjúkra- eða læknisaðstoðar við keppendur, ökumenn, starfsfólk eða áhorfendur.
15.2.5 Umhverfisfulltrúi er ekki skipaður sérstaklega fyrir þessa keppni. Allir starfsmenn keppninnar hjálpast að við að sinna hlutverki hans.
GREIN 15.3 HLUTVERK UMHVERFISFULLTRÚA
15.3.1 Hlutverk umhverfisfulltrúa er að tryggja eftir fremsta megni að umgegni á keppnissvæðinu sé til fyrirmyndar og í samræmi við gildandi lög og reglur.
GREIN 15.4 STAÐREYNDADÓMARAR
15.4.1 Nöfn og staða staðreyndadómara verða birt á upplýsingatöflu keppninnar.
16 RAFRÆNN BÚNAÐUR
16.1 Í stað brautarvarða með flögg getur keppnishaldari notast við ljósabúnað. Við brautina verða þá ljós sem lýsa grænu, gulu, rauðu eða SC.
16.1.1 Merking ljósanna er sambærileg merkingu flagga:
16.1.1.a grænt ljós blikkar þegar braut er hrein og akstur ótakmarkaður. Hafi grænt ljós logað lengur en 30 sekúndur verður það logandi stöðugt dauft grænt. Ljósapóstur sem ekki lýsir er marklaus og ber að túlka sem óbreytta stöðu frá síðasta pósti sem lýsti hverju sinni;
16.1.1.b gult ljós blikkar þegar hætta er í braut og ber að virða það samkvæmt reglum;
16.1.1.c rautt ljós blikkar þegar keppni hefur verið stöðvuð og ber að virða samkvæmt reglum;
16.1.1.d SC blikkar ef öryggisbíll er í braut. Það hefur sama gildi gagnvart reglum og gult ljós en gefur ökumönnum til kynna að öryggisbíll sé í braut og því þarf að aka eftir því.
GREIN 17 ÖKUTÆKI
17.1 Hver ökumaður má aðeins aka einu ökutæki í keppninni.
17.2 Hverju ökutæki mega allt að þrír ökumenn skiptast á að aka.
17.2.1 Séu fleiri en einn ökumaður um eitt ökutæki mega þeir sjálfir ákveða tímaskiptingu sín á milli við aksturinn.
17.3 Hjólbarðar
17.3.1 Hjólbarðar skulu flokkast sem sumardekk, hafa mynstur (slikkar eru ekki leyfðir) og uppgefið Treadwear (samkvæmt UTQG) frá framleiðanda 220 eða hærra.
17.3.1.a Gefi framleiðandi ekki upp Treadwear getur skoðunarmaður ákveðið hvort tiltekin dekk teljast samþykkt til keppni.
17.3.2 Lágmarks mynsturdýpt er 3mm við upphaf keppni.
17.3.3 Ekki má skipta um hjólbarða á meðan á keppni stendur.
17.3.4 Springi hjólbarði, eða missi loft að ráði, fellur ökutækið úr keppni og skal því ekið strax út úr aksturslínu brautarinnar þannig að ekki stafi af því hætta og ökumaður skal gefa merki með hazard ljósum um að aðstoðar sé þörf. Brautarstarfsmenn koma þá til aðstoðar og ákveða næstu skref.
17.4 Eldsneyti
17.4.1 Einungis er leyfilegt að nota eldsneyti sem fæst á dælu í almennri sölu á Íslandi.
17.4.2 Heimilt er að fylla á eldsneytistank ökutækis á meðan á keppni stendur.
17.4.2.a Áfylling skal gerð í pitti og undir eftirliti starfsmanns keppninnar sem tryggir öryggi allra í pittinum eftir fremsta megni.
17.4.2.b Enginn ökumaður má annast eldsneytisáfyllingar.
17.4.2.c Eldsneytisáfylling er ekki heimil í skilyrtum aksturshléum.
17.4.2.d Verði ökutæki eldsneytislaust er þátttöku þess í keppninni lokið og fær það ekki að aka úr pitti eftir að það hefur yfirgefið brautina.
17.4.3 Ekki er heimilt að setja eldsneyti á ökutæki undir þrýstingi öðrum en náttúrulegu aðdráttarafli jarðar.
GREIN 18 FRAMÚRAKSTUR
18.1 Óheimilt er að taka fram úr ökutæki sem er að taka fram úr öðru ökutæki á sama tíma.
18.2 Framúrakstur telst hafinn þegar framstuðari aftari bíls er samhliða afturstuðara fremri bíls.
18.3 Staðreyndadómarar leggja mat á framúrakstur og tilkynna dómnefnd um atvik sem ekki teljast samkvæmt reglum.
18.3.1 Í tilfellum þar sem framúrakstur er dæmdur refsiverður fær viðkomandi svart flagg við fyrsta tækifæri, ekur í pittstæði sitt og tekur út refsinguna þar.
GREIN 19 SÉRSTAKAR REFSINGAR
19.1 Refsing fyrir akstur utan hraðatakmarkana í pitti er 30 sekúndna tímarefsing sem tekin skal út í sérstöku pittstoppi sem ökumaður er boðaður í með svörtu flaggi.
19.2 Sé blátt flagg ekki virt er ökutæki svartflaggað og þarf að aka í pittstæði sitt og taka út refsingu sem dómnefnd ákveður áður en það fær að fara aftur inn á brautina.
GREIN 20 ÖRYGGISMÁL
20.1 Merkjagjöf getur verið hvort sem er, rafræn (ljósabúnaður), með flöggum eða bendingum starfsmanna.
20.2 Tímamæling er ekki stöðvuð þó gult flagg fari á loft.
20.3 Við rautt flagg ákveður keppnisstjóri hvort og þá hvenær og hve lengi tímamæling er stöðvuð.
20.4 Öryggisbíll
20.4.1 Keppnisstjóri tekur ákvörðun um að öryggisbíll aki inn á brautina þyki honum ástæða til.
20.4.1.a Að jafnaði er öryggisbíll notaður ef starfsmenn eða ökumenn teljast í hættu á eða við brautina en aðstæður kalla ekki á að keppni sé stöðvuð.
20.4.2 Gult flagg fer á loft (eða SC ljós) hjá öllum brautarvörðum á meðan öryggisbíllinn er í brautinni.
20.4.3 Engu keppnistæki skal ekið ógætilega, óreglulega, óeðlilega hægt eða á annan hátt sem telja má hættulegt öðrum keppendum eða starfsmönnum á meðan öryggisbíllinn er í brautinni. Á þetta við um allan akstur á brautinni og í pitt akreinum eða pitt svæði.
20.4.4 Öryggisbíllinn ekur inn á brautina með blikkandi ljós og án tillits til þess hvar fremsti bíll er staðsettur þá stundina.
20.4.5 Ökutæki skulu hægja ferð og mynda röð á eftir öryggisbílnum með hámark fimm bíllengdir á milli ökutækja.
20.4.6 Óheimilt er að taka fram úr öryggisbílnum eða öðrum keppnistækjum á meðan öryggisbíllinn er í brautinni. Framúrakstur er þó heimill ef:
20.4.6.a Ökumaður öryggisbíls gefur skýrt merki um framúrakstur.
20.4.6.b Hægi ökutæki á sér eða stoppi vegna augljósra vandræða sem hann ræður ekki við öðruvísi.
20.4.7 Þegar öryggisbíllinn yfirgefur brautina og ekur í pitt hefst hefðbundinn akstur að nýju.
20.4.7.a Þá falla gulu flöggin og grænt flagg er gefið (eða ljós, eftir atvikum).
20.4.7.b Þegar öryggisbíllinn hefur ekið inn á pittrein er framúrakstur heimill að nýju.
20.4.7.c Á meðan öryggisbíll er í braut heldur talning ekinna hringja áfram.
20.4.8 Fari rautt flagg á loft (eða ljós) ber ökumanni að aka rólega og af mikilli varkárni beint í pitt og stöðva ökutæki sitt í pittstæði sínu.
20.4.9 Aka skal í pittinn þó öryggisbíll haldi akstri áfram eftir brautinni!
20.4.10 Á meðan öryggisbíll er í brautinni og gult flagg er á lofti (eða ljós) má aka ökutækjum í pitt.
20.4.11 Þegar hleypt er inn á brautina úr pittinum á meðan öryggisbíll er úti er ökutækjum bætt aftan við halarófu þeirra sem honum fylgja, nema keppnisstjóri telji annað henta betur af öryggisástæðum.
20.5 Um öryggisbúnað ökumanna gilda reglur þess flokks sem ökutækið telst tilheyra samkvæmt flokkareglum AKÍS um tímaat.
21 KEPPNISFLOKKASKILGREINING
Ökutæki öðlast rétt til skráningar standist það öll skilyrði tiltekinnar flokkaskilgreiningar.
Hvert ökutæki verður að teljast falla undir einn af þeim flokkum sem í boði eru og skrást sem slíkt þó öll ökutæki séu í raun að keppa sem ein heild í keppninni og aki öll saman.
21.1 Bílar 1050cc / Unglingar 1050cc
21.1.1 Fjöldaframleiddir boddy bílar með drif á einum öxli og óblásna vél með slagrými undir 1050 rúmsentimetrum.
21.1.1.a Slagrými uppgefið af framleiðanda gildir.
21.1.2 Upprunalegu útliti skal halda, það er, stuðurum, grilli, hurðum ofl.
21.1.2.a Brettin skulu hylja allan bana hjólbarðanna að ofanverðu.
21.1.2.bHeimilt er að rúlla brettakanta upp að því marki að engar hvassar brúnir myndist.
21.1.3 Krumpusvæði fyrir framan demparaturna að framan og aftur fyrir turna að aftan verða að vera óbreytt nema breytingarnar teljist sambærilegar upprunalegri högun og séu gerðar með plötuefni með hámarks þykkt 1,5 millimetrar. Þetta á einnig við um vatnskassabita og framstykki.
21.1.4 Allar styrkingar í stuðurum sem eru úr málmi eða hörðu plasti eru bannaðar fyrir framan framstykki nema burðarvirki ökutækis sé þannig hannað að þær séu hluti af því.
21.1.4.a Þegar þörf er á styrkingu fyrir framan framstykki má einungis nota ál prófíl í stærðinni 60 mm x 30 mm með 3 mm efnisþykkt.
21.1.4.a.i Prófíl efnið má skrúfa í grindarbita og skal prófíllinn vera lárétt á milli þeirra og má ekki fara út fyrir hliðar á grindarbita.
21.1.5 Hvalbaksbreytingar eru bannaðar.
21.1.5.a Eldveggur milli ökumannsrýmis og vélarrýmis skal vera þéttur.
21.1.6 Blæjubílar og opnir bílar eru bannaðir.
21.1.7 Óheimilt er að hafa varadekk í ökutækinu.
21.1.8 Læsingarbúnaður á hurðum skal vera óbreyttur. Tryggt skal að hurðir opnist ekki í akstri.
21.1.9 Ökumannshurð skal vera með hurðaspjaldi eða annarri stífri klæðningu.
21.1.10 Þegar upprunaleg mælaborðshilla er fjarlægð verður að hylja svæðið frá framrúðu niður að stýristúbu með stífri klæðningu með engum hvössum brúnum sem ekki getur valdið hættu komi til áreksturs.
21.1.11 Hjólkoppa og útstæða hluti skal fjarlægja.
21.1.12 Hlífðarpanna er leyfileg, en hún má ekki standa út fyrir fram eða afturhluta ökutækisins.
21.1.13 Vatnsrör og kælikerfi skulu vera óbreytt.
21.1.14 Hemlarör og slöngur skulu vera heil og óskemmd.
21.1.15 Rafmagn er ekki leyfilegt sem aflgjafi ökutækis.
21.1.16 Eldsneytiskerfi skal vera óbreytt.
21.1.16.a Eldsneytislagnir skulu vera heilar og óskemmdar.
21.1.17 Rafgeymir og staðsetning hans skal vera óbreytt.
21.1.18 Allar breytingar á vél eru bannaðar.
21.1.18.a Breytingar á forritun vélartölvu eða útskipting hennar er heimil.
21.1.19 Breyting á staðsetningu vélar er bönnuð.
21.1.20 Upprunaleg gerð pústgreinar skal vera í ökutækinu.
21.1.21 Útblástursrör skal tryggja að útblástursgufur geti ekki borist í ökumannsrými.
21.1.22 Gírkassi skal vera af upprunalegri gerð.
21.1.23 Allar driflæsingar eru bannaðar.
21.2 Götubílar
21.2.1 Fjöldaframleiddir götubílar sem seldir hafa verið á almennum markaði.
21.2.2 Ökutæki skulu vera skráningarskyld og með gilda vátryggingu.
21.2.3 Allar breytingar eru leyfðar á bremsum, fjöðrunarkerfi, loftinntaki og pústi.
21.2.4 Heimilt er að bæta driflæsingu í ökutæki sem ekki hefur slíkan búnað fyrir.
21.2.5 Allar breytingar á yfirbyggingu eru bannaðar.
21.2.6 Innrétting skal öll vera í ökutækinu.
21.2.6.a Þó má skipta út framstólum, öryggisbeltum og stýri en ekki létta ökutækið að öðru leyti.
21.3 Breyttir götubílar
21.3.1 Fjöldaframleiddir götubílar sem seldir hafa verið á almennum markaði.
21.3.2 Ökutæki skulu vera skráningarskyld og með gilda vátryggingu.
21.3.3 Allar breytingar eru leyfðar á bremsum, fjöðrunarkerfi, loftinntaki og pústi.
21.3.4 Heimilt er að bæta driflæsingu í ökutæki sem ekki hefur slíkan búnað fyrir.
21.3.5 Engar takmarkanir eru á vél- og drifbúnaði.
21.3.6 Burðarvirki skal vera óbreytt, en má þó styrkja það að vild.
21.3.7 Allar breytingar á yfirbyggingu eru leyfðar.
21.3.8 Heimilt er að fjarlægja innréttingu ef sett er öryggisbúr í ökutækið eða það sem þarf fyrir aftan B póst til að koma fyrir veltiboga eða stöng fyrir sætisbelti.
21.3.8.a Skipta má út framstólum, beltum og stýri.
21.4 Opinn flokkur götubíla
21.4.1 Fjöldaframleiddir götubílar sem seldir hafa verið á almennum markaði.
21.4.2 Ökutæki skulu vera skráningarskyld og með gilda vátryggingu.
21.4.3 Allar breytingar eru leyfðar á bremsum, fjöðrunarkerfi, loftinntaki og pústi.
21.4.4 Heimilt er að bæta driflæsingu í ökutæki sem ekki hefur slíkan búnað fyrir.
21.4.5 Allar breytingar eru leyfðar.
Skipuleggjandi: KK
Keppnisgjald: 22000 kr.-
Keppnisskírteini fyrir ungliða: 1000 kr.-